Eftirfylgni og árlegar úttektir

Skv. reglum Vakans framkvæma óháðir úttektaraðilar árlegar úttektir hjá vottuðum fyrirtækjum. Þær geta verið í formi vettvangsheimsókna, undirbúinna eða óundirbúinna, eða að úttektaraðili óskar eftir uppfærðum gögnum. Tilgangur vettvangsheimsókna er að sannreyna að unnið sé í samræmi við það sem fram kemur í skriflegum gögnum auk almennrar skoðunar á gististaðnum. Ítarlegri vettvangsheimsókn er framkvæmd hjá þriggja til fimm stjörnu hótelum.

Mikilvægt er að hafa í huga að öll gögn eru lifandi skjöl sem þarf að uppfæra reglulega til að gæðakerfi fyrirtækisins sé virkt. Tilgreindur ábyrgðaraðili þarf að vera yfir verkefninu.

Í Vakanum er lögð áhersla á að gögn séu aðgengileg og allir starfsmenn séu upplýstir og uppfræddir reglulega. Nauðsynlegt er að uppfæra og halda vel utan um menntun og þjálfun starfsfólks og tryggja að öryggisáætlun sé ávallt í samræmi við starfsemi fyrirtækisins og þá þjónustu sem fyrirtækið býður hverju sinni. Kallað er eftir þessum gögnum í árlegum úttektum.

Árlegar úttektir þarf að undirbúa vandlega en þær miðast við gildandi gæða- og umhverfisviðmið á hverjum tíma. Hafi orðið íþyngjandi breytingar á viðmiðum er fyrirtækjum gefinn aðlögunartími til að uppfylla breyttar kröfur.

Í kjölfar úttektar

Staða fyrirtækis getur breyst eftir árlega úttekt ef í ljós kemur að fyrirtækið uppfyllir ekki lengur gæða- og umhverfisviðmið Vakans. Fyrirtækið hefur þó þrjá mánuði til að uppfylla það sem á vantar. Gangi það ekki eftir getur fyrirtæki misst vottun og þar með rétt sinn til að auðkenna sig með merki Vakans.