Gæða- og umhverfisvottun fyrir gistingu

Hægt er að sækja um gæða- og umhverfisvottun Vakans fyrir fimm tegundir gistingar sem skiptist þannig að stjörnuflokkun, með superior möguleika, er í boði fyrir hótel, en aðrir gistiflokkar fá gæðavottun fyrir gististaðinn. Sbr. gæðavottað gistiheimili, gæðavottað hostel, gæðavottað tjaldsvæði o.s.frv.

Gistiflokkarnir eru eftirtaldir:

 • Merki fyrir fjögurra stjörnu hótelHótel
 • Gistiheimili 
 • Hostel
 • Orlofshús-íbúðir
 • Tjaldsvæði 

  Markmið Vakans er að auka fagmennsku og efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í íslenskri ferðaþjónustu 


Gæðaviðmið fyrir allar tegundir gistingar byggja á svipuðum grunni og taka mið af sömu þáttum eins og t.d. aðkomu og umhverfi, öryggismálum, sameiginlegum rýmum, aðbúnaði á herbergjum, hreinlæti, þjónustu og menntun og þjálfun starfsfólks.

Stjörnuflokkun fyrir hótel byggir á viðmiðum Hotelstars.eu

Uppfylla þarf allar lágmarkskröfur innan hvers stjörnuflokks fyrir sig. Ef þjónusta og aðbúnaður er langt umfram lágmarkskröfur í tilteknum flokki er möguleiki á superior flokkun.

 Lágmarks stigafjöldi fyrir hvern stjörnuflokk er sem hér segir:

 • Þriggja stjörnu hótel = 190 stig
 • Þriggja stjörnu superior = 280 stig
 • Fjögurra stjörnu hótel = 280 stig
 • Fjögurra stjörnu superior = 425 stig
 • Fimm stjörnu hótel = 425 stig
 • Fimm stjörnu superior = 490 stig

Einnig fjölgar lágmarkskröfunum eftir því sem stjörnurnar verða fleiri. Þannig þarf fjögurra stjörnu hótel að uppfylla fleiri lágmarkskröfur en þriggja stjörnu superior þó svo að stigafjöldinn geti verið sá sami, sbr. töflu.

Gæðamál eru einn af hornsteinum blómstrandi ferðaþjónustu og með aukinni samkeppni verða kröfurnar sífellt meiri. Vakinn er gott tæki fyrir aðila í ferðaþjónustu til að líta heildstætt á málin með það að markmiði að gera enn betur hvort sem um er að ræða þjónustu við gesti eða innri starfsemi fyrirtækisins.  

Opinber stjörnugjöf fyrir hótel  hefur verið í boði hér á landi frá árinu 2000. Með tilkomu Vakans árið 2012 tóku gildi ný og endurbætt gæðaviðmið fyrir hótel og bætt var við nýjum viðmiðum fyrir aðrar tegundir gistingar. Viðmiðin hafa síðan þá verið endurskoðuð reglulega. Nú er í gildi 4. útgáfa viðmiðanna.


  Stjörnuflokkun auðveldar ferðamönnum val á gististað 


Stjörnuflokkun fyrir hótel 

Um allan heim eru gestir vanir að hafa stjörnugjöf til viðmiðunar þegar þeir velja sér gististað.  Þó flokkunin sé ekki alfarið samræmd milli landa hefur stjörnugjöf alþjóðlega skírskotun og auðveldar fólki að velja sér gistingu í þeim gæðaflokki sem það kýs. Slíkt kemur sér vel fyrir bæði gesti og gististaði. Þar fyrir utan sýnir reynslan að stjörnugjöf, þar sem um ræðir úttekt óháðs þriðja aðila, hefur í mörgum tilfellum reynst mikilvægt hjálpartæki fyrir gististaði sem vilja bæta þjónustu sína. Þannig getur stjörnuflokkun stuðlað að vaxandi gæðum íslenskra hótela til lengri tíma auk þess sem hún ætti að styrkja stöðu áfangastaðarins Íslands á alþjóðlegum markaði.