Gæðaviðurkenning fyrir ferðaþjónustu aðra en gistingu

Viðurkennd ferðaþjónustaMarkmið Vakans er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu með handleiðslu og stuðningi, ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð innan greinarinnar.

Gæðakerfi Vakans er nýjung hér á landi, ekki hefur áður verið til gæðakerfi sem tekur á jafn mörgum þáttum innan ferðaþjónustu og gert er í Vakanum.

Frá 1. janúar 2019 verða allir þátttakendur í Vakanum að taka þáttt í umhverfishluta og uppfylla að lágmarki skilyrði fyrir brons viðurkenningu.

Almenn gæðaviðmið og sértæk gæðaviðmið

Gæðakerfið fyrir þann hluta Vakans sem snýr að allri þjónustu við ferðamenn annarri en gistingu,  byggir á tvennskonar viðmiðum:

  1. Almenn gæðaviðmið, sem gilda fyrir allar tegundir ferðaþjónustu fyrir utan gistingu.
  2. Sértæk gæðaviðmið, fyrir mismunandi flokka ferðaþjónustu. Þau eru 30 talsins og má sem dæmi nefna viðmið fyrir gönguferðir í þéttbýli, viðmið fyrir hestferðir, viðmið fyrir vélsleðaferðir, viðmið fyrir veitingahús o.fl. Sértækum viðmiðum verður fjölgað og ný þróuð í takt við aukna fjölbreytni í tilboðum til ferðamanna.
     

  Uppfylla þarf 70% af almennum viðmiðum og 100% af sértækum viðmiðum sem við eiga.


 

Mikilvægi gæðamála í ferðaþjónustu

Árangur í ferðaþjónustu byggir meðal annars á öflugu markaðsstarfi en sú vinna er til lítils ef upplifun gestanna verður ekki í samræmi við væntingar. Með ferða- og samskiptasíðum (t.d. Trip Advisor, Facebook, Twitter o.fl.) hefur rödd neytandans fengið aukið vægi og gæðamál orðið enn mikilvægari. Þegar fólk tekur ákvarðanir um ferðalög horfir það í sífellt ríkara mæli til þess sem aðrir ferðalangar á undan þeim hafa upplifað. Hver var þeirra upplifun? Stóðst ferðin væntingar? Gæði skipta sköpum fyrir orðspor íslenskrar ferðaþjónustu og þátttaka í gæðakerfi getur skapað fyrirtækjum samkeppnisforskot og sérstöðu meðal samkeppnisaðila.


Rúmlega 75% erlendra ferðamanna segja að viðurkennd gæðavottun hafi mjög eða frekar mikil áhrif á val á ferðaþjónustufyrirtæki.

(Könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamann á Íslandi veturinn 2015-2016)