Forsaga

Aðilar í ferðaþjónustu á Íslandi höfðu í mörg ár rætt sín á milli um nauðsyn á samræmdu gæðakerfi sem myndi henta fyrir allar greinar í ferðaþjónustu á Íslandi. Árið 2008 fól því Iðnaðarráðuneytið Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að vinna að gerð slíks kerfis og var ráðgjafafyrirtækið Alta fengið til að gera úttekt á nokkrum slíkum kerfum víða um heim. Ákveðið var að byggja á kerfi því sem unnið er eftir í ferðaþjónustu á Nýja Sjálandi og kallast Qualmark, en kerfið var staðfært og aðlagað að íslenskum aðstæðum.

Unnið í náinni samvinnu

Verkefnið hefur verið unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands og þannig hefur skapast breið samstaða innan ferðaþjónustunnar um þennan mikilvæga málaflokk sem gæðamál eru. Á árinu 2010 var haldin samkeppni um nafn og merki kerfisins og var ákveðið að velja nafnið Vakinn, sem þótti vera mjög lýsandi fyrir verkefnið en kerfinu er einmitt ætlað að vaka yfir frammistöðu þeirra sem starfa í greininni og vekja og viðhalda áhuga á gæðum íslenskrar ferðaþjónustu. Með Vakanum er því draumurinn orðinn að veruleika og markmiðið er að sem flest fyrirtæki sjái hag sinn í að ganga til liðs við Vakann.

Verkfæri ferðaþjónustuaðila

Kerfið er fyrst og fremst verkfæri til að aðstoða þátttakendur við að auka gæði og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og stuðningi, ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. Þetta er gert með hjálpargögnum og leiðsögn auk þess sem það að fara í gegnum gæðaviðmið Vakans er í raun lærdómsferli í sjálfu sér.

Val sem borgar sig

Ferðaþjónustuaðilar eru ekki skyldugir að taka þátt í Vakanum. Styrkleikar kerfisins eiga einmitt að felast í því að kostir þess séu ótvíræðir og öllum augljósir. Þannig munu gestir, þegar fram í sækir, fara að þekkja merki Vakans og haga viðskiptum sínum í samræmi við það. Í könnun Ferðamálastofu (2015/2016) meðal erlendra gesta kemur fram að 75% þátttakenda í könnunni sögðu að það hafi mjög eða frekar mikil áhrif á val viðkomandi á ferðaþjónustufyrirtæki að það hefði viðurkennda gæðavottun. Mikilvægast er þó að með þátttöku í Vakanum fá ferðaþjónustuaðilar í hendur tæki sem getur verið þeim verkfæri og leiðsögn í átt til betri gæða og fjárhagslegs ávinnings.

 

Gæðakerfið

Gæðakerfið skiptist í tvo flokka:

 1. Stjörnuflokkun fyrir gististaði
  Byggir á gistiviðmiðum fyrir sex mismunandi gistiflokka þar sem staðirnir eru flokkaðir frá einni og upp í fimm stjörnur.
 2. Ferðaþjónusta önnur en gisting
  Þessi flokkun byggir á tvenns konar viðmiðum, annars vegar almennum viðmiðum og hinsvegar sértækum viðmiðum eftir því hvers konar starfsemi fer fram í fyrirtækinu. Hér er ekki um stjörnuflokkun að ræða, annað hvort standast fyrirtæki lágmarkskröfur Vakans eða ekki.

 

Umhverfiskerfið

Helstu áherslur í umhverfiskerfinu:

 • Stefnumótun og starfshættir
 • Innkaup og auðlindir 
 • Orka 
 • Úrgangur 
 • Náttúruvernd 
 • Samfélag
 • Birgjar og markaður
 • Upplýsingar til viðskiptavina

Í framhaldi af úttektinni fá fyrirtæki gull, silfur eða bronsmerki eftir árangri á sviði umhverfismála.

Nánar um umhverfiskerfi Vakans