Umhverfisvottun VAKANS

Umhverfi

Líkt og gæðakerfi Vakans er umhverfiskerfið byggt á sambærilegu kerfi hjá Qualmark á Nýja Sjálandi. Yfirumsjón með aðlögun kerfisins að íslenskum aðstæðum hafði Stefán Gíslason hjá UMÍS ehf. - Environice.

Kannanir meðal ferðamanna hafa árum saman fært okkur heim sanninn um að meginaðdráttarafl Íslands er hin stórfenglega náttúra. Hún er gulleggið okkar sem við þurfum að varðveita og skila áfram ósködduðu til komandi kynslóða. Því er mikilvægt að tengja saman umhverfis- og gæðamál, líkt og gert er í Vakanum. Auk þess gera viðskiptavinir vaxandi kröfur til fyrirtækja um að þau sýni ábyrgð og leggi af mörkum til samfélags- og umhverfismála og beina viðskiptum sínum frekar til fyrirtækja sem standa sig vel í þessum efnum.

Eitt af markmiðum Vakans er að fá sem flesta ferðaþjónustuaðila til að sýna samfélagslega ábyrgð í verki, taka þátt í umhverfisstarfi og hljóta viðurkenningu fyrir. 

Frá og með 1. janúar 2019 þurfa allir þátttakendur í Vakanum að taka þátt í umhverfishluta og uppfylla að lágmarki viðmið sem eiga við bronsmerki og fá sérstaka viðurkenningu fyrir.

Silfur- eða gullmerki

Hægt er að sækja um silfur eða gullmerki Vakans í umhverfishluta. Grænt bókhald þarf m.a. að vera fyrirliggjandi svo hægt sé að sýna fram á þær mælingar sem krafist er í viðmiðunum fyrir þessa flokka. Fyrir silfurmerki þarf m.a. að vera til grænt bókhald fyrir sl. 12 mánuði en fyrir gullmerki þarf að vera fyrirliggjandi grænt bókhald sl. 24 mánaða.


    Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu?


 

Umhverfiskerfi Vakans fylgja ýmis hjálpargögn svo sem gátlistinn Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu sem umsækjendur þurfa að fylla út. Ennfremur vöktunarblöð sem ætluð eru til að fylgjast með og skrá notkun á heitu vatni, rafmagni og eldsneyti og magni úrgangs. Tekið skal fram að þessi vöktunarblöð henta þó fyrst og fremst minni fyrirtækjum.

Allir sem taka þátt í umhverfiskerfinu þurfa að skila gátlistanum "Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu" útfylltum til úttektarfyrirtækis. Þau fyrirtæki sem stefna á silfur- eða gullmerki þurfa einnig að skila inn grænu bókhaldi vegna úrgangs, rafmagns, heits vatns eða eldsneytis.

Þau fyrirtæki sem þegar eru með vottun samkvæmt Svaninum eða Umhverfismerki ESB fá gullmerki að því tilskildu að þau uppfylli umhverfisviðmið 300-1.1 og 300-2.1

Helstu áherslur í umhverfiskerfinu eru:

  • Stefnumótun
  • Úrgangsflokkun
  • Grænt bókhald - mælingar
  • Samfélagsábyrgð
  • Loftslagsmál