Fyrstu fimm stjörnu hótelin

Í fyrsta skipti hafa íslensk hótel nú hlotið fimm stjörnu flokkun samkvæmt viðurkenndu hótelflokkunarkerfi. Um er að ræða The Retreat Bláa Lónsins, sem fær fimm stjörnu Superior flokkun og Hótel Grímsborgir í Grímsnesi sem er fimm stjörnu hótel.

Um nokkur tímamót er að ræða. Gæðamál eru íslenskri ferðaþjónustu mikilvæg og hafa stjórnvöld lagt áherslu á þau í stefnumótun fyrir atvinnugreinina. Þetta er því ánægjulegur áfangi á þeirri vegferð.

Hótelin eru vottuð samkvæmt gæðakerfi Vakans en það er eina viðurkennda hótelflokkunarkerfið hérlendis. Samkvæmt reglugerð um gististaði er óheimilt að auðkenna sig með stjörnum eða öðrum merkjum sem gefa til kynna hvers konar gæðaflokkun nema að undangenginni formlegri gæðaúttekt þriðja aðila sem viðurkennd er af stjórnvöldum.

VAKINN er gæða- og umhverfisvottunarkerfi sem Ferðamálastofa stýrir en markmið þess er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Gæðaviðmið Vakans fyrir hótel byggja á gæðaviðmiðum frá evrópska Hotelstars kerfinu sem leitt er af Hotrec, regnhlífarsamtökum hótela og veitingahúsa í Evrópu.  Á heimasíðu Vakans má finna nánari upplýsingar um gæðakerfið og lista yfir þau hótel og gististaði sem uppfylla kröfur til að merkja sig stjörnugjöf.

Ferðamálastofa óskar báðum aðilum innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

The Retreat Bláa Lónsins

Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa Lónsins:

„Það er gríðarlegur heiður fyrir okkur að vera fyrsta og eina hótelið á Íslandi til að hljóta slíka vottun og er um leið staðfesting á því hvar The Retreat stendur í alþjóðlegum samanburði. Fimm stjörnu Superior vottun VAKANS er líka mikil lyftistöng fyrir íslenska ferðaþjónustu í heild sinni því hún hjálpar til í öllu markaðsstarfi erlendis.“

Vottun VAKANS er enn ein rósin í hnappagat The Retreat Bláa Lónsins en hótelið hefur unnið til á þriðja tug alþjóðlegra verðlauna frá því að það opnaði á páskadag í fyrra þar á meðal arkitektaverðlaun ársins (Architectural Design of the Year) á hinni alþjóðlegu verðlaunahátíð í síðustu viku og hin þekktu Red Dot-verðlaunin sem það hlaut fyrr í sumar.

Hótel Grímsborgir

Ólafur Laufdal eigandi Grímsborga:

„Við hjá Hótel Grímsborgum erum himinlifandi og stolt með 5 stjörnu viðurkenninguna sem er hvatning til að gera enn betur og halda áfram að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjóða gestum okkar upp á stórkostlega upplifun á meðan á dvöl þeirra stendur.

Hótel Grímsborgir er núna fimm stjörnu hótel fyrir allt að 240 gesti, staðsett í Grímsnesi við Gullna Hringinn í kjarri vöxnu landi á bökkum Sogsins með fagra fjallasýn allt um kring. Hótelið býður upp á gistingu í 68 superior herbergjum, 7 svítum, 5 stúdíóíbúðum og 7 stærri íbúðum með 4 svefnherbergjum hver sem rúma allt að 8 manns. Herbergin og svíturnar eru með sér verönd/svalir og allir gestir hafa aðgang að heitum pottum sem eru samtals 29 á hótelinu.