Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Akureyri - Akureyrarstofa í Vakann

Hulda Jónsdóttir stolt af viðurkenningu Vakans
Hulda Jónsdóttir stolt af viðurkenningu Vakans

Upplýsingamiðstöðvar landshlutanna bætast nú í hóp Vakafyrirtækja ein af annarri og er Upplýsingamiðstöðin á Akureyri nýjasti þátttakandinn í Vakanum.

“Það er okkur mikið kappsmál í öllum okkar störfum að veita sem besta þjónustu og viðhafa hlutleysi gagnvart öllum hagsmunaaðilum í upplýsingagjöf. Í amstri dagsins getur verið erfitt að koma umbóta vinnu við en Vakinn gefur kærkomið tækifæri til þess,” segir Hulda Jónsdóttir umsjónarmaður Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna á Akureyri. “Innleiðing Vakans gerir allt okkar starf mun faglegra og skilvirkara.”

Upplýsingamiðstöðin er landshlutamiðstöð í upplýsingaveitu ferðamanna á Norðurlandi eystra og gegnir sem slík lykilhlutverki í upplýsingamiðlun til erlendra og innlendra ferðamanna á svæðinu. Gæði, vandvirkni og samræming þjónustu og fagleg upplýsingagjöf eykur líkur á ánægju gesta og annarra þeirra sem leita upplýsinga, aðstoðar og annarrar þjónustu hjá miðstöðinni.  Straumur ferðamanna um upplýsingamiðstöðina eykst stöðugt enda er hún í alfaraleið í Menningarhúsinu Hofi.

Akureyrarstofa annast daglegan rekstur Upplýsingamistöðvarinnar en hún er kostuð af Akureyrarbæ í samstarfi við sveitarfélögin í Eyjafirði með stuðningi Ferðamálastofu. Upplýsingamiðstöðin í Hofi er opin daglega frá byrjun maí til lok september og virka daga frá október til apríl.