TripCreator í Vakann

Ferðaskrifstofan TripCreator hlaut á dögunum viðurkenningu Vakans, en ferðaskrifstofan á og rekur vefinn tripcreator.com, sem er einstakur á heimsvísu

Ferðaskrifstofan TripCreator hlaut á dögunum viðurkenningu Vakans og bronsmerki í umhverfiskerfinu, en ferðaskrifstofan á og rekur vefinn tripcreator.com, sem er einstakur á heimsvísu.„Þetta er alíslensk hugmynd sem kviknaði hjá stofnendum fyrirtækisins fyrir nokkrum árum síðan og er gott dæmi um íslenskt hugvit og drifkraft. Nokkrir einstaklingar sem voru að pæla á svipuðum nótum komu svo að hugmyndinni á seinni stigum,“ segir Ólafur Hilmarsson einn af stofnendum félagsins. „Þetta er ný nálgun á skipulagningu ferða og öðruvísi ferðaskrifstofa en við eigum að venjast. Ekki eru seldar fyrirfram ákveðnar ferðir heldur getur fólk farið inn á síðuna, skipulagt og sérsniðið ferð eftir sínum þörfum og þrám með hjálp þeirrar tækni sem TripCreator byggir á.”

TripCreator hóf starfsemi sína árið 2013, en hjá því starfa nú tíu starfsmenn og eru höfuðstöðvar þess á Íslandi en einnig er rekin þróunardeild í Litháen. 

Á myndinn má sjá Hilmar Halldórsson og Ólaf Hilmarsson hjá TripCreator. Við hjá Vakanum óskum fyrirtækinu innilega til hamingju með glæsilegan árangur og bjóðum þau velkomin í hóp gæðafyrirtækja í Vakanum.