Skjaldarvík í Vakann

Ferðaþjónustan Skjaldarvík er nýjasti þátttakandinn í Vakanum. Gistiheimilið Skjaldarvík hlýtur viðurkenningu Vakans sem fjögurra stjörnu gisting og hestaleigan í Skjaldarvík sem viðurkennd ferðaþjónusta. Þá fær Skjaldarvík jafnframt brons-umhverfismerki Vakans.

Mynd: Skjaldarvík er meðlimur í Félagi ferðaþjónustubænda en Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Ferðaþjónustu bænda, afhenti þeim hjónum í Skjaldarvík einmitt Vaka-viðurkenninguna úti í Viðey þar sem aðalfundur Félags ferðaþjónustubænda var haldinn á dögunum í frábæru veðri. Berglind er hér lengst til vinstri með þeim Bryndísi og Ólafi.

Ferðaþjónustan Skjaldarvík er nýjasti þátttakandinn í Vakanum. Gistiheimilið Skjaldarvík hlýtur viðurkenningu Vakans sem fjögurra stjörnu gisting og hestaleigan í Skjaldarvík sem viðurkennd ferðaþjónusta. Þá fær Skjaldarvík jafnframt brons-umhverfismerki Vakans.

Ferðaþjónustan í Skjaldarvík er fjölskyldufyrirtæki í eigu hjónanna Bryndísar Óskarsdóttur og Ólafs Aðalgeirssonar. Dætur þeirra þær Klara, Katrín og Sunneva taka allar virkan þátt í rekstrinum.

Skjaldarvík var reist sem elliheimili, stofnað og rekið af Stefáni Jónssyni klæðskera og bónda. Vorið 2010 tók fjölskyldan við staðnum og hóf rekstur ferðaþjónustu. Lögð er áhersla á persónulega þjónustu og viðmót. Verndun umhverfisins og endurnýting er rauður þráður í rekstri ferðaþjónustunnar, gamlir munir fá nýtt líf og jafnvel nýtt hlutverk og skapar það gistiheimilinu skemmtilega sérstöðu. Á veitingastaðnum er lögð áhersla á hreinleika og þekktan uppruna. Nánast allt er unnið frá grunni, brauðin bökuð á staðnum, sultur soðnar og grænmeti og kryddjurtir ræktað í heimilisgarðinum eftir því sem kostur er. Áhersla er að ferskleika og hráefni úr héraði.