Ný og endurbætt útgáfa gæða- og umhverfisviðmiða Vakans

Umhverfi og sjálfbærni

Ný og endurbætt útgáfa gæða- og umhverfisviðmiða Vakans, fyrir ferðaþjónustu aðra en gistingu, tók gildi sl. áramót.

Í þessari 5. útgáfu viðmiðanna hefur verið lögð enn meiri áhersla á kröfur er tengjast umhverfismálum og sjálfbærni fyrirtækja. Má nefna sem dæmi áherslu á ábyrga ferðahegðun og umgengni við náttúruna, markmið og áherslur fyrirtækja vegna loftslagsmála, aukna samfélagslega ábyrgð, leiðir til að draga úr kolefnisspori og fleira.

Gátlistinn Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu, sem er nauðsynlegt fylgigagn Vakans, er nú í endurskoðunarferli og mun ný og endurbætt útgáfa verða birt á vefsíðu Vakans innan skamms. Gátlistinn inniheldur hugmyndir um aðgerðir sem fyrirtæki geta gripið til á öllum þremur sviðum sjálfbærninnar þ. e. samfélags, efnahags og umhverfis.

Aðrar helstu breytingar

Frá síðustu útgáfu eru aðrar helstu breytingar þær að aukin áhersla er á sóttvarnir og þrif, kröfur um þjálfun leiðsögumanna hafa verið gerðar skýrari, orðalag uppfært, röðun viðmiða endurskoðuð og endurtekningum fækkað eins og kostur er.

Samstarf

Við gerð gæða- og umhverfisviðmiðanna í upphafi, og við hverja endurskoðun síðan þá, hefur verið haft samráð við ýmsa fagaðila er tengjast greininni og það sama var gert nú. Einnig bárust ýmsar ábendingar og athugsemdir frá áhugasömum fyrirtækjum.

Ferðamálastofa þakkar öllum þeim sem hafa komið að þessari endurskoðun.