Íslandshótel fá gæða- og umhverfisviðurkenningu Vakans

Fulltrúar Íslandshótela með ferðamálastjóra
Fulltrúar Íslandshótela með ferðamálastjóra
Íslandshótel hafa hlotið stjörnuflokkun Vakans fyrir sex hótel á sínum vegum en það eru Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum, Best Western Hótel Reykjavík, Fosshótel Baron, Fosshótel Lind og Fosshótel Reykjavík. Auk þess fá veitingastaðirnir Haust, Bjórgarðurinn og Grand Restaurant allir gæðaviðurkenningu Vakans og umhverfisflokkun líkt og áðurnefnd hótel.

Íslandshótel hafa hlotið stjörnuflokkun Vakans fyrir sex hótel á sínum vegum en það eru Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum, Best Western Hótel Reykjavík, Fosshótel Baron, Fosshótel Lind og Fosshótel Reykjavík. Auk þess fá veitingastaðirnir Haust, Bjórgarðurinn og Grand Restaurant allir gæðaviðurkenningu Vakans og umhverfisflokkun líkt og áðurnefnd hótel.

Fleiri hótel innan Íslandshótela eru í úttektarferli og munu fylgja í kjölfarið á næstu misserum.

Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 26. april. Gestir hlýddu á skemmtileg og fróðleg erindi og boðið var upp á ljúffengar veitingar af matseðli Grand Restaurant sem og sýnishorn af lífrænt vottuðum morgunverði Grand Hótels.

„Íslandshótel eru afar stolt af að hafa farið í þessa ítarlegu vinnu og fyrir að hafa náð svo glæsilegum árangri á sviði gæða og umhverfismála“, sagði Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela
en hann kynnti stefnu Íslandshótela í umhverfismálum og hraðan vöxt fyrirtækisins. Guðlaugur Sæmundsson innkaupastjóri Íslandshótela ræddi um mikilvægi umhverfisþátta í innkaupum hjá Íslandshótelum sem vakti verðskuldaða athygli. Finnur Sveinsson stjórnarformaður Festu fjallaði um mikilvægi umhverfis- og samfélagsábyrgð í fyrirtækjarekstri sem Íslandshótel hafa tileinkað sér um langt skeið. Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar þakkaði Íslandshótelum fyrir veglegan styrk og útskýrði hvernig honum var varið til varnar á utanvegaakstri og Garðar Gunnlaugsson landsliðsmaður í knattspyrnu og nýútskrifaður úr Hótelstjórnunarskólanum fjallaði um jákvætt orðspor Íslands og hlutverk starfsfólks því tengt.

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri afhenti hótelstjórum og öðrum forsvarsmönnum Íslandshótela Vaka viðurkenningarnar. Hún ávarpaði einnig samkomuna og sagði m.a. „ Umræða um framgang gæðamála hefur farið vaxandi síðust árin og haldist í hendur við vaxandi umfang atvinnugreinarinnar sjálfrar. Það er ánægjulegt til þess að vita, hversu meðvituð og metnaðarfull fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar eru hér á landi og hversu vel þau gera sér grein fyrir að gæðamál innan fyrirtækja verða ekki metin nema með áreiðanlegum og viðurkenndum mælikvörðum. Þannig sendir það í besta falli tvíræð skilaboð ef fyrirtæki auðkennir sig með stjörnum sem engir áreiðanlegir mælikvarðar liggja að baki og sem þriðji aðili hefur ekki tekið út - og getur raunar orðið til vansa þeim fyrirtækjum, gagnvart viðskiptavinum sem og endursöluaðilum.

Við starfsfólk Ferðamálastofu og aðrir aðstandendur Vakans erum afar stolt af því að geta fagnað því í dag að alls 6 hótel innan Íslandshótela hafa farið í gegnum gæðaflokkun Vakans á síðustu misserum og geta nú flaggað sínum stjörnum með glæsibrag. Þetta er afar glæsilegur árangur og mikilvægur áfangi í þróun Vakans, enda Íslandshótel leiðandi hótelkeðja hér á landi og fyrirtæki sem teygir starfsemi sína víða um land. Þið eruð því mikilvægar fyrirmyndir öðrum fyrirtækjum og verðugir sendiherrar Vakans um land allt. Við erum afar, afar ánægð með að fá ykkur til liðs við okkur.”

 

Um Íslandshótel

Íslandshótel hf. á og rekur 16 hótel. Þau eru Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum, Best Western Hótel Reykjavík, Hótel Reykjadal og Fosshótel sem eru 12 talsins. Hjá Íslandshótelum starfa þegar mest lætur um 1000 manns og í sumar mun fyrirtækið bjóða upp á rúmlega 1.700 herbergi.