Hidden Iceland er gæða- og umhverfisvottað fyrirtæki

Á myndinni eru frá vinstri Ryan Connolly markaðs og umhverfisstjóri, Scott Drummond framkvæmdastjóri…
Á myndinni eru frá vinstri Ryan Connolly markaðs og umhverfisstjóri, Scott Drummond framkvæmdastjóri, Dagný Björg Stefánsdóttir forstjóri og Sigurður Harðarson frá vottunarstofunni iCert

Hidden Iceland er fjölskyldurekið ferðaþjónustufyrirtæki stofnað 2017. Fyrirtækið sem fékk nýverið gæða- og umhverfisvottun Vakans sérhæfir sig í dagsferðum og pakkaferðum. Áherslan er á sérsniðnar ferðir fyrir fjölskyldur og litla hópa um land allt t.d. gönguferðir á jökli, íshellaskoðun, norðurljósaskoðun eða heimsókn í einhverja af fjölmörgum náttúrulaugum landsins.

Lögð er áhersla á persónulega þjónustu, góða skipulagningu og vel þjálfað og framúrskarandi starfsfólk. Góðar umsagnir á Trip Advisor og gæða- og umhverfisvottun Vakans bera vott um áherslu á fagmennsku og góða þjónustu.

Verndun íslenskrar náttúru og umhverfismál eru Hidden Iceland afar mikilvæg. Allur rekstur Hidden Iceland hefur verið kolefnisjafnaður frá upphafi og er sífellt leitast eftir því að finna leiðir til að lágmarka áhrif á nærumhverfið samhliða vaxandi umsvifum í rekstri. Scott Drummond framkvæmdastjóri segir „Frá upphafi höfðum við gæðastaðla Vakans að leiðarljósi varðandi það hvernig best væri að reka ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi á áhrifaríkan hátt og við höfum stöðugt bætt okkur í gegnum árin. Við erum mjög stolt af því að hafa hlotið þessa viðurkenningu núna á árinu“.

Forstjóri Hidden Iceland, Dagný Björg Stefánsdóttir, segir „Á tímum þar sem ferðaþjónustan er að taka miklum breytingum vildum við halda áfram að sýna ágæti okkar og bæta alla starfs- og verkferla. Þess vegna höfum við notað síðustu mánuði til að rýna vel í okkar rekstur og í framhaldinu höfum við straumlínulagað marga ferla sem við töldum áður sjálfsagða. Ég vil þakka öllum hjá iCert og Vakanum fyrir að aðstoða Hidden Iceland að ná þessu markmiði.  Scott Drummond, Ryan Connolly markaðs- og umhverfisstjóri, Joe Kane yfirleiðsögumaður, Guðrún Valdimarsdóttir og allir hinir í okkar frábæra teymi fá bestu þakkir fyrir þá þrotlausu vinnu sem þau hafa lagt í að fá vottun Vakans. Þetta var teymisvinna alla leið."