Háfjall / Stepman hefur hlotið gæða- og umhverfisvottun Vakans

Fyrirtækið Háfjall ehf. / Stepman hlaut nýlega gæða- og umhverfisvottun Vakans en það er lítið fjölskyldufyrirtæki á Hornafirði í eigu hjónanna Stephan Mantler og Ingu Stumpf. Stepman býður upp á ferðir á jökla og fjöll í nágrenni Hornafjarðar. Mikil áhersla er lögð á persónulega þjónustu við viðskiptavini, gæði, náttúruvernd og miðlun þekkingar í ferðum.

Stephan og Inga tóku ákvörðun um að innleiða Vakann til þess að tryggja og þróa gæði og öryggi í afþreyingaferðunum. „Það var stórt skref og frekar mikil vinna fyrir tveggja manna fyrirtæki en gekk mjög vel með aðstoð Vottunarstofunnar Túns.“

Í náinni framtíð stendur hugur hjónanna til þess að ná enn lengra á sviði umhverfismála og stefna að silfur- eða gullvottun.

Auk afþreyingarinnar reka hjónin bændagistingu undir nafni Dynjanda þar sem boðið er upp á gistingu í þremur tveggja manna herbergjum og hafa þau hug á að sækjast eftir vottun fyrir gistinguna. Á Dynjanda er ennfremur stunduð hrossarækt og þar eru líka kindur og hænur.

Við á Ferðamálastofu óskum Stephan og Ingu innilega til hamingju með vottunina og bjóðum þau velkomin í hóp Vakafyrirtækja.