Gönguferðir í fjalllendi

Umræða frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu

Umræða frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu

Innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa skapast miklar umræður um notkun svokallaðra hálkubrodda í gönguferðum í fjallendi. Mikil aukning virðist vera á fjallaferðum undanfarin misseri og er það góð þróun.
Nokkur óhöpp hafa orðið í þessum ferðum og í einhverjum tilfellum í framhaldinu skapast umræða um hvort þar komi hálkubroddar við sögu?

Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri Safetravel hjá slysavarnarfélaginu Landsbjörg hefur skrifað meðfylgjandi pistil um málið.

Útbúnaður í vetrargönguferðum
Síðustu misserin virðist hafa orðið mikil aukning í iðkun landans á gönguferðum að vetrarlagi og er það vel. Fátt er betra en að stökkva til fjalla, upplifa náttúruna og takast á við þær aðstæður sem göngumanns bíða. Í fréttum höfum við nokkrum sinnum lesið um að óhöpp hafi átt sér stað í þessum ferðum og því má segja að vandi fylgi vegsemd hverri. Útbúnaður sem þarf í gönguferðir að vetrarlagi er að mörgu leyti annar en að sumarlagi. Því er kannski rétt að fara yfir helstu atriði sem hafa ber í huga til að auka líkur á velheppnaðri gönguferð og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða skipulagða ferð á vegum fyrirtækis, gönguklúbbs eða ferðar á eigin vegum.
Alltaf á að skilja eftir ferðaáætlun hjá aðstandendum (í höndum fararstjóra í skipulögðum ferðum) en einnig má gera slíkt á www.safetravel.is. Í henni þarf meðal annars að koma fram hvert leið liggur og hvenær heimkomutími er áætlaður. Fatnaður þarf að vera góður og best er að hugsa hann í þremur lögum, nærföt sem innsta lag, miðlag með gott einangrunargildi og ysta lag þarf að vera vel vatns- og vindhelt. Hægt er að nálgast nokkrar tegundir búnaðarlista á vefsíðu Safetravel. Sé haldið til fjalla þarf alltaf að taka með snjóflóðaýli, skóflu og snjóflóðaleitarstöng. Gönguskór þurfa að vera góðir og vera svokallaðir hálfstífir skór svo hægt sé að festa á þá mannbrodda ef gangan leiðir menn á þær slóðir að notkun á þeim sé nauðsynleg.
Hér komum við kannski að því atriði sem helsti munurinn er á hvað varðar sumar- og vetrargönguferðir. Á veturnar þarf oft og alltaf ef haldið er til fjalla að vera með mannbrodda og ísexi. Eitthvað hefur borið á því að göngumenn láti duga að nota svokallaða hálkubrodda en notkun slíkra brodda til fjalla gerir ekkert annað en að bjóða hættunni heim. Sú hætta felst meðal annars í því að á hálkubroddum getur göngumaður gengið inn á svæði sem eru erfið yfirferðar og lent þar í sjálfheldu eða dottið án þess að geta stöðvað sig. Í stuttu máli falskt öryggi. Í raun er betra að vera eingöngu með ísexi, höggva spor í snjóinn ef á þarf að halda og geta þá stöðvað sig með ísöxinni ef viðkomandi rennur af stað niður brekkuna.
Réttur útbúnaður felst í því að vera með mannbrodda sem ætlaðir eru til gönguferða í vetraraðstæðum. Ekki eingöngu eru þeir broddar sérstaklega hannaðir til notkunar til fjalla heldur eru festingar líka öruggari en á hálkubroddum. Ísexi á alltaf að vera með í för því göngumaður getur líklegast ekki stöðvað sig ef hann fellur í hálli fjallshlíð án hennar.
Síðast en ekki síst verður að vera til staðar þekking og reynsla á þeim útbúnaði sem með er í för, hvort sem um er að ræða snjóflóðaöryggisbúnað eða annað. Hér á landi má sækja námskeið en ekki síður má sækja reynslu í skipulagðar ferðir þar sem vanir fararstjórar leiða ferðir á ábyrgan hátt.