Fyrirtækið Ís og ævintýri – Glacier Jeeps er nýjasti þátttakandinn í Vakanum.

„Afþreyingarfyrirtækið Glacier Jeeps hóf rekstur 1994.  Í fyrstu var  reksturinn  smár í sniðum en árið 2001 var Ís og Ævintýri ehf stofnað og kaup fest á skálanum Jöklaseli sem stendur í 830m hæð við rætur Vatnajökuls. Að sögn Bjarneyjar Bjarnadóttur býður fyrirtækið upp á fjölbreyttar ævintýra-ferðir fyrir hópa og einstaklinga um Vatnajökul. Um er að ræða ferðir á sérútbúnum jeppum, vélsleðum og snjóbílum ásamt jöklagöngu, sem hafa það að markmiði að skapa ævintýralega upplifun fyrir ferðamanninn með persónulegri þjónustu, staðbundinni þekkingu, og öryggi.  „Innleiðing Vakans var stórt verkefni og er fyrirtækið afar stolt af því að vera orðið  þátttakandi í Vakanum þar sem markmiðið er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu.  Allt frá stofnun fyrirtækisins hefur markmiðið verið  að veita framúrskarandi þjónustu og hámarksöryggi, þá hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og umhverfismál, verndun viðkvæmrar náttúru með það að leiðarljósi að skilja ekki eftir sig spor í náttúrunni. Því má með sanni segja að viðurkenning Vakans sé ein af frekari staðfestingu á mikilvægi þessara þátta hjá fyrirtækinu. Við þökkum starfsfólki Vakans fyrir góða handleiðslu og gagnleg og aðgengileg hjálpargögn.“

Á myndinni eru Unnur Jónasdóttir, Bjarney Bjarnadóttir og Jóna Ingólfsdóttir.