Drög að 5. útgáfu gæða- og umhverfisviðmiða

Endurskoðun gæða- og umhverfisviðmiða Vakans, fyrir ferðaþjónustu aðra en gistingu, hefur staðið yfir á þessu ári og mun ný útgáfa taka gildi um áramót.  

Hér á vefsíðu Vakans má nú finna drög að 5. útgáfu almennra og sértækra gæðaviðmiða auk umhverfisviðmiða.  

Helstu breytingar eru þær að  orðalag hefur verið uppfært, röðun viðmiða endurskoðuð og endurtekningum fækkað. Nokkrar nýjar kröfur hafa bæst við en aðrar fallið út. Einnig má nefna að kröfur um þjálfun leiðsögumanna hafa verið gerðar skýrari.  

Endurskoðun þessi tekur óhjákvæmilega mið af þeim veruleika sem við höfum búið í undanfarin misseri og breyttum áherslum í kjölfar Covid-19 sem birtist í  aukinni áherslu á þrif og sóttvarnir. Auk þess er lögð enn meiri áhersla á öryggi viðskiptavina með því að bæta við viðmiðum sem snúa að bættri upplýsingagjöf.  

Í vinnu við endurskoðunina var nýr og uppfærður staðall fyrir ævintýraleiðsögn frá samtökunum Adventure Travel Trade Association (ATTA) hafður til hliðsjónar og segja má að viðmið Vakans samræmist vel þeim kröfum sem þar eru settar fram. Enn fremur kallast viðmið Vakans á við ISO staðla fyrir ævintýraleiðsögn. 

Við gerð gæða- og umhverfisviðmiðanna í upphafi og við hverja endurskoðun síðan þá hefur verið haft samráð við ýmsa fagaðila er tengjast greininni og það sama er gert nú. Má þar m.a. nefna Félag íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG), Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Samtök ferðaþjónustunnar SAF og Stefán Gíslason hjá Environice. 

Drögin verða opin fyrir athugasemdir/ábendingar til 1. nóvember n.k. og eru áhugasamir eindregið hvattir til að senda inn ábendingar og athugasemdir á netfangið vakinn@vakinn.is