DMC I travel hefur fengið vottun samkvæmt gæða- og umhverfisviðmiðum Vakans

Á myndinni er Inga Guðmundsdóttir eigandi og framkvæmdastjóri DMC I travel ehf.
Á myndinni er Inga Guðmundsdóttir eigandi og framkvæmdastjóri DMC I travel ehf.

DMC I travel ehf. hlaut nýverið vottun Vakans með einstökum árangri þar sem fyrirtækið fékk gullmerki í umhverfishluta. DMC I travel ehf. er ferðaskrifstofa sem veitir erlendum og innlendum fyrirtækjum þjónustu við skipulagningu hvataferða, fundi eða ráðstefnur á Íslandi. Markmiðið er að viðskiptavinir fái einstaka upplifun af landi og þjóð og að til verði ógleymanlegar minningar. Þarfirnar eru mismunandi og fyrirtækið leggur mikla áherslu á þætti eins og  traust, sköpun og gæði. Til að DMC I travel ehf. geti tryggt og ábyrgst þjónustugæði gagnvart viðskiptavinum sínum er viðskiptum beint til viðurkenndra og ábyrgra þjónustuaðila, birgja og viðskiptavina. 

Að sögn Ingu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra fluttu hóparnir sem voru væntanlegir 2020 sig flestir til ársins 2022. „Þá voru góð ráð dýr. Hvað átti að gera við þann „lausa tíma“ sem framundan var? Ákveðið var að „fjárfesta“ í innviðum félagsins og setja áfangaskil. Rýnt var ofan í stefnur, aðferðafræði og áherslur með slagorðinu „Byggja aftur betur“. Umsóknin um vottun Vakans var unnin með aðstoð Rósbjargar Jónsdóttur hjá Cognito ehf. og Ragnars Þórðarsonar hjá Vottunarstofu Túns ehf. Mikil vinna og metnaður liggur að baki umsóknarinnar í Vakann og verðmætur lærdómur hefur skapast sem nýtist til framtíðar. Samfélagsleg ábyrgð og umhverfismál hafa aldrei verið mikilvægari og því er vottunin frábær viðurkenning og mikil hvatning fyrir félagið sem mun halda öllum á tánum til framtíðar“