Blue Car Rental með vottun Vakans

Á myndinni eru frá vinstri Sævar og Jónína frá Blue Car Rental og Ævar Einarsson frá skoðunarstofunn…
Á myndinni eru frá vinstri Sævar og Jónína frá Blue Car Rental og Ævar Einarsson frá skoðunarstofunni BSI á Íslandi

Nýverið bættist bílaleigan Blue Car Rental í hóp öflugra ferðaþjónustufyrirtækja sem eru með vottun Vakans. 

Blue Car Rental ehf. var stofnað árið 2010. Fyrirtækið hefur stækkað jafnt og þétt frá stofnun með sístækkandi bílaflota og fjölgun starfsmanna. Í dag er Blue Car Rental í hópi stærstu bílaleiga landsins og hefur yfir að ráða mjög nýlegum bílaflota. Covid-19 faraldurinn hefur að sjálfsögðu sett strik í reikninginn og fyrirtækið þurft að endurskipuleggja sig og fækka starfsfólki. Ætlun fyrirtækisins til framtíðar er þó að halda áfram að vaxa og dafna enda markmið Blue Car Rental að verða fremst í flokki bílaleiga á Íslandi.

Gæða- og umhverfismál hafa verið eitt af forgangsmálum fyrirtækisins undanfarin ár og það ætlar sér enn lengra í þeim efnum á næstunni en sett hafa verið markmið um grænt bókhald og grænni innkaup á bílaflota. Þá hefur fyrirtækið unnið ötullega að öryggismálum og veitir viðskiptavinum örugga og góða þjónustu.

“Við erum því afar stolt af því að hafa hlotið  gæða- og umhverfisvottun  Vakans. Vottunin er staðfesting á því sem við erum að gera vel og í leiðinni hvati til að viðhalda vottuninni og gera enn betur. Það er metnaður og drifkraftur innan fyrirtækisins að halda ávallt gæða-, öryggis- og umhverfismálum eins og best verður á kosið, bæði gagnvart viðskiptavininum og starfsfólki okkar. Fyrirtækið þakkar starfsfólki Blue Car Rental fyrir að ná markmiðum vottunarinnar, þá sérstaklega Sævari Sævarssyni aðstoðar framkvæmdastjóra og Jónínu Magnúsdóttur mannauðsstjóra fyrir að hafa drifið verkefnið áfram með mikilli vinnu í frábæru teymi.”