Nýtt fyrirtæki í hóp vottaðra fyrirtækja - Sky Lagoon hefur hlotið gæða- og umhverfisvottun Vakans

Sky Lagoon hlaut nýlega gæða- og umhverfisvottun Vakans. Baðlónið, sem staðsett er á ysta odda Kársness í Kópavogi, hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á sjálfbærni, umhverfisvernd og tengingu við íslenska náttúru. Náttúran spilar einkennandi hlutverk í Sky Lagoon, og því skiptir meðvitund um notkun á náttúruauðlindum og verndun nærumhverfisins fyrirtækið miklu máli.

"Náttúran og umhverfið er stór hluti af því að alast upp á Íslandi - og Sky Lagoon endurspeglar það. Mikilvægi þess að halda sjálfbærni sem leiðarvísi í gegnum allt ferlið varðandi hönnun og byggingu Sky Lagoon, var ljóst frá byrjun, en það fór mikil vinna og skipulag í það að ná okkar markmiðum. Við fengum veigamikla ráðgjöf frá sérfræðingum á ýmsum sviðum, nýttum okkur endurnýjanlega orku við öll tækifæri, og settum upp sjálfbærnistefnu sem við fylgdum í hvívetna." - segir Helga María Albertsdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon. „Það hefur verið í mörg horn að líta og því afar ánægjulegt að hafa nú einnig klárað vottunarferli Vakans sem var okkur mjög hjálplegt og lærdómsríkt“ segir Helga ennfremur.

Sky Lagoon hlaut vottun fyrir alla sína starfsemi, þ.m.t. veitingastaðinn Sky Café en auk þess fékk Sky Lagoon bronsvottun í umhverfishluta Vakans.

Ferðamálastofa óskar forsvarsmönnum og starfsfólki Sky Lagoon innilega til hamingju með frábæran árangur.